Draugar fortíðar
Það var skömmustuleg móðir sem hringdi í dóttur sína eftir síðustu bloggfærslu hér á síðunni. Hún játaði nefnilega fyrir mér að Doppa, hundurinn sem datt í hverinn þegar ég var svona þriggja eða fjögurra ára, hefði eiginlega ekki kannski alveg dáið akkúrat þannig... hún datt sko í hverinn einu sinni, og brenndist (þetta mundi ég), en lifði það alveg af. Það var svo sko eiginlega ekki fyrr en pabbi fór með hana til dýralæknisins að.......
*gisp*
Það er skrýtið þegar eitthvað sem maður hefur tekið sem sjálfsagt reynist svo alrangt, sérstaklega þegar það snertir dauða ástvinar, eins og í tilfelli Doppu. En ég álasa foreldrum mínum alls ekki fyrir þetta og það er bara tilviljun að þetta kemur upp núna en ekki fyrr (nema þau telji mig fyrst núna nógu andlega sterka og stabíla til að móttaka svona fréttir) og í raun slógu þau tvær flugur í einu höggi, fríuðu sig af dauða hundsins og tryggðu ævilanga hræðslu mína við hverasvæðið ógurlega.
Nú er spurningin hverju öðru hefur verið leynt fyrir mér, og ég hvet foreldra mína og aðra mér nákomna til að hringja í mig til að ljóstra upp fleiri fortíðardraugum. Engar áhyggjur, ég held ég sé ekkert svo brothætt lengur. Og hver veit nema ég lumi á einum eða tveimur sem kominn er tími til að draga fram í dagsljósið...
sunnudagur, október 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli