sunnudagur, október 01, 2006

Hugarmynd

Málið með hugmyndir er að stundum hljóma þær betur á blaði eða í huga manns en þegar þær eru framkvæmdar. Svo virðist hafa verið með borgarmyrkvunina frægu fimmtudaginn síðasta. Þegar ég las um hugmyndina í Draumalandinu hans Andra Snæs fannst mér hún svo sniðug að ég skildi ekki af hverju ekki væri löngu búið að framkvæma hana. Svo þegar myrkrið mikla skall á klukkan tíu á fimmtudaginn varð ég - og flestir sem ég hef talað við - fyrir þónokkrum vonbrigðum. Auðvitað hefðu vonbrigðin verið minni hefði verið stjörnubjart, en það lá þykk skýjamotta yfir borginni allri einmitt þetta kvöld. Í gærkvöldi leit ég upp í himininn um tíuleytið í götunni heima og sá norðurljósin dansa um himinhvolfin og stjörnurnar blika. Þá hefði ég viljað losna við bjarmann frá ljósastaurunum. Það pínlega er þó að á fimmtudagskvöldið, þegar pabbi minn var á leið heim í sveitina úr borginni, búinn að keyra framhjá uppljómuðum bensínstöðvum og bílasölum, stoppaði hann við Skíðaskálann klukkan hálfellefu til að sjá þegar borgin ljómaði upp á ný. „Uppljómunin“ var að hans sögn hálfgerð vonbrigði, en þegar hann leit upp í himininn blasti við honum stjörnubjartur himinn... rétt fyrir utan borgina sem kúrði undir skýjamottunni. Nafni hans Arnarson hefði betur pælt aðeins meira í bæjarstæðinu áður en hann kastaði súlunum.

Annars fékk ég nýtt sjónarhorn á þessa blessuðu myrkvun þegar ég talaði við stelpu í skólanum. Hún ætlaði bara að vera inni hjá sér að lesa meðan ljósin voru slökkt og nennti ekkert að taka þátt í þessu, en lenti í mikilli innri baráttu um hvort hún ætti að slökkva hjá sér öll ljós til að þóknast fólkinu fyrir utan eða gefa skít í þetta og halda bara áfram að lesa. Hún kaus það síðarnefnda en svo þegar krakkakarinn fyrir utan öskraði á hana að slökkva ljósin gafst hún upp og sat svo bara í myrkrinu og beið eftir að hálftíminn liði, hundfúl og pirruð... Þetta fannst mér sætt.

Engin ummæli: