mánudagur, október 09, 2006

Ðeganogoðbatjoh

Ég var þriggja ára þegar Reagan og Gorbatsjoff komu á hinn fræga fund í Höfða, og bróðir minn rétt hálfs árs. Ég bjó á Lindarbrekku, gulu bárujárnshúsi með rauðu þaki sem liggur í hlíðinni upp frá hverasvæðinu í Laugarási. Við áttum hund sem hét Doppa og hún var búin að klóra stórt gat í útidyrahurðina. Hún drukknaði í hvernum, og kenndi mér að minnsta kosti þá lexíu að forðast hverasvæðið að eilífu. Ég er ennþá skíthrædd við það.

Í bakgarðinum var ég með eigið kokkaeldhús þar sem ég bakaði girnilegar súkkulaðikökur skreyttar með fíflum og hrafnaklukkum. Þar voru líka risastórir sveppir þar sem strumpar bjuggu. (Eða þangað til strákur kom og lamdi sveppina með spýtu til að gá - ég held hann hafi drepið þá.)

Þegar Reagan og Gorbatsjoff funduðu í Höfða man ég að ég sat inni í stofu með pabba og horfði á sjónvarpið. Pabbi lét mig segja Reagan og Gorbatsjoff. Ég man að ég hermdi fullkomlega eftir honum en hann fór bara að hlæja, en sagði samt að ég væri dugleg. Ég skildi þetta aldrei alveg, mér fannst þetta ekkert fyndið. Þess má þó geta að ég gat ekki sagt stafinn R, (og get varla enn) svo svona eftir á að hyggja hefur þetta kannski verið svolítið fyndið. (Frá sama tíma er til dásamleg upptaka af mér að syngja lagið „Ðauð ðauð ðauð, eð ðóþin henna mömmu.“)

Engin ummæli: