Eyjartaðskegglingur
Það er ekkert grín að búa á eyju lengst úti í Atlantshafi og tala tungumál sem bara nokkrar hræður kunna og þykjast svo vilja skoða heiminn. Það er sérstaklega í janúar og febrúar sem ég finn fyrir því að búa á skeri sem manni finnst með ólíkindum að flæði hreinlega ekki yfir þegar öldurnar brotna nánast á glugganum hjá mér hérna í Faxaskjólinu og ég þarf að tína þangið af bílrúðunni.
Á meðan geta vinirnir í Evrópu bara tekið lest til næsta lands eða landa án þess að borga flugvélagjöld, -mat, -bensín, flugvallarskatta og -tolla og annað sem fylgir óhjákvæmilega hverjum einasta skottúr burt af þessum útnára. Þeir geta skroppið á bílnum sínum í langa helgi frá Danmörku til Póllands til að fara á ódýrt fyllerí, frá Ungverjalandi til Sviss á skíði eða taka rútuna frá Prag til London (tekur 24 tíma).
Hér er þetta allt svo miklu þyngra í vöfum. Systir mín sagði einu sinni þegar hún var aðeins yngri að það væri svo asnalegt þegar lönd afmörkuðust ekki af sjó; það væru ekki lönd, því hvernig átti fólk að vita hvar landið endaði? Ég skil viðhorfið, en hugsið ykkur hvað það væri dásamlegt að geta skroppið í verslunarferð til London á bílnum, að heimsækja vini eða fjölskyldu í Danmörku eða Svíþjóð eða jafnvel gera góða ferð úr brúðkaupi vinar í Hollandi og koma við á nokkrum stöðum í leiðinni!
Æ, auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Auðvitað kostar bensín líka og löng keyrsla er ekki það skemmtilegasta, sérstaklega eftir þungum hraðbrautum Evrópu. En möguleikinn er fyrir hendi, og það er það sem gerir þessa vist okkar sem hér húkum svo grátlega.
Ég er núna alveg viðþolslaus og er byrjuð að skipuleggja ferð um Evrópu, ekta lestarferðalag sem ég vona að ég geti spunnið aftanúr kórferðalagi í Frakklandi sem ég fer í í júní. Ég ætla helst að fara til Austurríkis, Ungverjalands og Slóvakíu, jafnvel fleiri landa, en ég hef þá allavega nóg að gera þangað til við að leita að bestu lestarmiðunum og skipuleggja dagskrána. Það er það sem skiptir máli og leyfir okkur eyjarskeggjum kannski að njóta þess betur þegar við loksins getum tekið flugið.
mánudagur, febrúar 19, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Helduru að bloggsíður íbúa meginevrópu séu ekki stútfull af væli og öfund yfir því hvað við Íslendingar séum heppnir að eiga enga landamæra(ó)vini? Ha? Eþaggi?
Það er alveg örugglega þannig, enda eru útlendingar upp til hópa mjög uppteknir af samanburði við Íslendinga.
í sambandi við næst seinustu málsgreinina: talaðu fyrir sjálfa þig!
Hahaha, að sjálfsögðu tala ég fyrir sjálfa mig... þetta jú mitt blogg;)
Ég sofnaði í gær með landabréfabókina í fanginu, einhvers staðar á Indlandi...
Mana þig að gera skúlptúr úr þorski. Getur kallað verkið "Cod Piece".
Hmmm... er alveg farin að sjá það fyrir mér... grr
Skrifa ummæli