föstudagur, mars 28, 2008

Vonandi höfðuð þið það öll gott um páskana. Mínir páskar voru góðir, í paradísinni Valparaíso og Viña, þar sem ég skoðaði meðal annars tvö hús Pablos Neruda (hann átti þrjú sem chileíska ríkið erfði, nú á ég bara eftir að sjá það sem er í Santiago). Annað er í Valpo og hitt í Isla Negra, sem er þrátt fyrir nafnið ekki eyja, og ekki svört, heldur mjög fallegur staður við sjóinn, þar sem Neruda var með frábært útsýni yfir hafið úr svefnherberginu sínu. Hann liggur þar grafinn við hlið þriðju og síðustu eiginkonu sinnar, Matilde.
Hann var forfallinn safnari, safnaði allskyns glerflöskum og glösum úr lituðu gleri (sagði að vatn bragðaðist betur úr lituðum glösum), eftir hann liggur ótrúlegt skelja- og kuðungasafn og fornmunir frá Evrópu og alls staðar að, stafnmyndir skipa og fleira. Þetta er allt til sýnis í húsunum hans, sem eru öll undarleg í laginu, ýmist eins og skip eða legókastali, þar sem hæðirnar virðast hafa sprottið upp hver af annarri.

Við fórum fjórar stelpur, hver frá sínu landinu, (Skandinavíu og USA) og fengum far með vini Mörtu, honum Jorge (Georg). Hann er ekki maður margra orða, hlustar á Phil Collins og Maná og er eini Chilebúinn sem ég átti erfitt með að halda uppi samræðum við. Venjulega geta þeir blaðrað endalaust um ekki neitt án þess að hafa fyrir því. Þá list þurfum við norrænir að læra ef við ætlum á suðrænni slóðir. Vinna í því.

Vinir Jorges (og Mörtu) voru öllu hressari (þótt Jorge væri æði, keyrði okkur og leyfði okkur að gista í íbúðinni sinni, með maurum og öllu). Saman vorum við öll mestalla helgina, og þeir sem vilja geta séð hjá mér myndirnar sem eru á Facebook, ófésbókarar geta bara sent mér meil ef þeir vilja link á myndirnar: sli [hjá] hi.is.

Það var mikið gert grín að mér út af spænska hreimnum (þá meina ég hreimnum frá Spáni), og ég var kölluð 'tía' alla helgina, því það er orð sem þýðir 'frænka' en er líka notað fyrir 'gaur' eða 'gella/kona/stelpa' á Spáni, en ekki í Rómönsku Ameríku. Fólk hér spyr mig meira að segja hvort ég sé spænsk, og það eftir bara eina setningu (ég er einmitt svo spænsk í útliti). Það er greinilega ekki nóg að hætta að segja 'þ' og segja 'ustedes' en ekki 'vosotros' (sem þýðir 'þið') því hrynjandin og 's'-in mín eru svo innilega spænsk. Vinna í því líka. Það versta er að ég heyri þetta ekki sjálf, svo ég veit ekki hvernig ég á að laga það. Þarf að hlusta á konurnar hérna tala og reyna að herma eftir þeim. Mér finnst þær tala fallega, þótt Chilebúar segi sjálfir að spænskan hér sé ljótasta spænskan (á eftir argentínskri, auðvitað, enda allt slæmt sem kemur frá Argentínu).

Yfir og út, góða helgi,
Lilia


1 ummæli:

Fjóla Dögg sagði...

Hæ frlnka :D
Gaman ða heyra frá þér gaman að fylgjast með þér sömuleiðis.
Vertu endilega í sambandi fjol@isl.is

Kv Fjóla frænka

p.s. ég fék ksvo góða hugmynd um aginn að mig langaði að fara í stídíó með þér og taka upp lagið sem við sungum í söngvakepnini í MH og gefa afa. Hvað finnst þér?