þriðjudagur, mars 11, 2008

Leiðinlega færslan

Daginn í dag átti sko að taka með trompi. Fara í útlendingaeftirlitið og fá námsmannavísa, fara til lögreglunnar og vera skráð inn í landið og fara svo og fá nafnskírteini (eftir því sem ég best skil). Fara í stöðupróf í spænsku klukkan 15 og í seminar í bókmenntum klukkan 18, og jafnvel kíkja á kóræfingu hjá einum af kórunum sem ég get farið í.

Ég fór með öll skjölin mín, ljósrit og passamyndir á staðinn sem fína útlendingahandbókin mín sagði mér að fara á, en þar sagði lögga mér að útlendingaskrifstofan væri flutt. Ég fann auðvitað ekki staðinn þar sem hann átti að vera, labbaði fram og til baka og spurði aðra löggu og þá allt í einu birtist inngangurinn... eitthvað duló. Þar þurfti ég að taka númer og bíða í biðsalnum þar sem biðu svona 50 manns, flestir frá alls kyns löndum í Suður- og Mið-Ameríku sýndist mér, konur með Bólivíuhatta og fleiri, komnir í fyrirheitna landið þar sem á að vera miklu betra að búa en í heimalandinu. Þar komst ég að því að nú er ekki lengur hægt að skila pappírunum inn á skrifstofuna, heldur verður allt að fara í gegnum póst. Svo ég tók mér réttu eyðublöðin (vonandi) og fór út án þess að tala við nokkurn mann. Nú þarf ég bara að senda þessi skjöl og vona að það gangi hratt fyrir sig að fá vísað, því ég á allt hitt kjaftæðið eftir.

En þegar ég var búin að öllu þessu (sem sagt engu) og þramma út um allan miðbæ í óvenju miklum kulda, var ég orðin eitthvað skrítin, illt í maganum og með höfuðverk og beinverki. Ég sá fyrir mér með hryllingi að taka tvo annaðhvort alltof heita og troðna eða alltof kalda metróa, svo ég splæsti í leigubíl heim (sem kostaði samt miklu minna en strætómiði í RVK) og fór að sofa, svaf af mér prófið (viljandi) og nú er ég líka að hætta við að fara í seminarið sem ég ætlaði í, því ég er bara alveg hundlasin. Þá er ekkert annað að gera en liggja fyrir og reyna að vera ekki í of mikilli fýlu út af þessu öllu saman.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sendi heilsubótarkveðju út til þín ljúfust mín! Mér finnst líklegt að svona veikindi séu eðlileg þegar fólk hefur bæði ferðast langa vegu og þarf að aðlagast mat og veðráttu. Þú ert ótrúlega flott!

þín Sigga

Orri sagði...

Ég heyrði af ekvadorska stúlku sem kom til íslands og þurfti að fara að sinna einhverjum svona skriffinsku erindum í skattstofunni og þjóðskrá eða eitthvað svoleiðis. Hún var steinhissa að þurfa ekki að láta fólkið fá pening til þess að erindin hennar yrðu einhverntíman afgreidd.

Ég gæti því trúað að þú getir sparað þér mikinn tíma og vesen og ferðir fram og til baka og biðtíma með því að taka með smá pening næst þegar þú ferð að sinna svona erindum. (en þá geri ég ráð fyrir að öll suður amerísk lönd séu eins og þar með líka suður amerísk stjórnsýsla).

Gangi þér vel að batna.

Nafnlaus sagði...

Immigration Offices...welcome to my world Svanhvít :))))
I hope you are better now.
Hugs and kisses. Magda.sd

Tinnuli sagði...

Æ ertu strax komin með útlendingaveikina skinnið mitt..