sunnudagur, mars 16, 2008

Sunnudagur. Ég þreif baðherbergið. Það hlaut að koma að því, ég er meira að segja hissa að ég var ekki löngu búin að því. Það er viðbjóður, og enginn virtist ætla að þrífa það heldur. En nú er það skárra. Það eru reyndar þrjú baðherbergi í húsinu, en við erum þó þrjár um þetta.

Ég held það sé kominn tími til að ég segi aðeins frá íbúðinni og fólkinu sem ég bý með (núna. Þar sem þetta eru útlendingar koma þeir og fara, og í næsta mánuði verða allir farnir nema ég og norska stelpan.)


Við erum sex sem búum hérna, Rodrigo, sem sér um íbúðina, og kærastinn hans er líka talsvert hérna, og líka systir Rodrigos, Pipi. Svo eru Kelly og Amber frá Bandaríkjunum, Marta frá Noregi og Raymond frá Þýskalandi. Og ég, frá Lazytown (hér ganga allir krakkar í Sollu stirðu- og Íþróttaálfsfötum).
Rodrigo er frábær. Hann vinnur mikið, svo ég sé hann eiginlega ekkert virka daga, en um helgar finnst honum voðalega gaman að skvetta úr klaufunum og þá er hann gífurlega hress. Hann er ekki búinn að segja mér að hann sé hommi, en hommaradarinn minn fór að tikka eftir nokkra daga. Það eru talsverðir fordómar hérna ennþá, þótt það sé að breytast mjög hratt til hins betra á síðustu árum, en þetta er auðvitað mjög kaþólsk þjóð, svo hann og kærastinn leiðast ekkert úti á götu eða neitt, og þurfa svolítið að fela sambandið, eða finnst það greinilega. Það finnst mér sorglegt, þeir hafa verið saman í fleiri ár held ég, og það hlýtur að vera ömurlegt að fela hver maður er og hvern maður elskar.
Kelly, stelpa frá Maryland (eins og kexið), sagði að mamma hennar hefði verið mjög fegin að strákurinn sem hún væri að fara að búa með væri hommi. Mamman á fimm systkini og þar af eru þrjú samkynhneigð. Það eru 50% af börnum aumingja ömmu hennar Kelly, sem er kaþólsk mjög, svo eitthvað hefur reynt á þolrifin þar. Hins vegar er núna komin upp skrítin staða, þ.e. að einn bróðirinn (gagnk.hn.) er að fara að gifta sig. Hann er yfir fimmtugt, og ætlar að kvænast frænku sinni, þ.e. þau eru systrabörn. Aldursins vegna eru þau ekki að fara að eignast börn, og þetta má í þessu tiltekna ríki í USA, svo þetta ætti að vera alveg á hreinu, en þetta stuðar mann samt svolítið, og fjölskyldan er í uppnámi út af þessu. Það er þó svo erfitt fyrir þessa tilteknu fjölskyldu að gagnrýna þetta fyrirkomulag og vera með fordóma, eðli málsins samkvæmt, svo þetta er fjölskyldudrama eins og það gerist best. Kelly er mjög fín og við getum blaðrað endalaust. Fyrst fannst mér hún eitthvað köld, en hún er bara feimin, þ.e. á sumum sviðum. Hún til dæmis skilur flest sem sagt er á spænsku, en talar hana ekki, þótt hún hafi lært í mörg ár.
Amber hins vegar, hin bandaríska stelpan, er algjör andstæða hennar hvað þetta varðar, því hún talar spænsku út í eitt þótt hún kunni mjög takmarkað. Hún bara talar, með öllum sínum vitleysum og hikorðum og bullorðum, en það er bara gaman að því, og hún á eftir að læra mjög hratt. Hún er gífurlega hress og léttgeggjuð, mjög skemmtileg. Kelly gerir grín að Amber fyrir að bulla svona mikið, hún fer eitthvað hjá sér, og það særir Amber mjög mikið, svo það er svolítil spenna að myndast þar, því það er kannski ekki sniðugt að gera grín að einhverjum sem þorir að tala ef maður þorir það ekki sjálfur.
Marte frá Noregi er gullfalleg, kaffibrún eftir að hafa komið beint frá Vina del Mar þar sem hún var í málaskóla, og ofsalega indæl. Hún verður alveg þangað til í júlí í íbúðinni, sem er gott, því hún er alltaf til í að hanga og er mjög skemmtileg. Hún er svona manneskja sem lítið er hægt að segja um því hún er svo góð og indæl eitthvað.
Raymond hinn þýski er svo síðastur. Hann er svona pínu dularfullur, til dæmis veit ég ekkert hvað hann er gamall. Ég hélt hann væri svona um tvítugt, en hann segist vera 27 ára. Ég eiginlega trúi því ekki, því hann einhvern veginn virkar alls ekki þannig (Rodrigo ætlar að njósna, segjast þurfa að sjá vegabréfið hans út af leigusamningnum). Hann líður svolítið fyrir að við hinar erum allar stelpur og sitjum inní stofu og kjöftum um stráka heilu kvöldin, en hann fer með hvítvínsflösku inn í herbergi og vinnur (jarðfræðieitthvað fyrir lokaverkefnið sitt í háskólanum).
Þetta eru semsagt meðleigjendurnir. Svo er allskonar fólk sem kemur og fer, sem setur mikinn svip á íbúðina. Til dæmis er kærasti Rodrigos söngvari, mjög góður tenór, og í fyrradag kom hann hingað til að æfa með stelpu, Ave Maríu Schubert, fyrir brúðkaup sem þau fóru í í gær. Það var æði að hlusta á þau syngja, og þegar þau komust að því að ég syng líka fórum við að leita að lögum sem við kynnum öll, og sungum t.d. Amazing grace og Ave verum corpus. Þau buðu mér á kóræfingu á þriðjudaginn, hjá Mozartkórnum, svo ég ætla að prófa það.
Söngkonan sem söng með honum er alveg dásamleg, syngur eins og engill, og er bara sextán ára! Hún var uppgötvuð fyrir tveimur árum og hefur verið að syngja síðan. Hún er algjör náttúrutalent, með perfect pitch og æðislega tæra sópranrödd. Við urðum strax bestu vinkonur, og ég er búin að ákveða að hún sé litla systir mín í Chile, enda minnir hún mig líka soldið á Maríu Sól systur, þær eru líka jafngamlar og syngja báðar.

Við fórum öll út saman í gær, og það var mjög gaman. Systirin átti afmæli svo hún var í miklu stuði, og eftir að við höfðum dansað á einhverjum stað í svona 4 klst. og við vorum öll á leiðinni heim, fór hún ekki heim heldur á 'after', sem er týpa af skemmtistöðum þar sem er opið eftir að allir staðirnir loka um fjögur- fimmleytið. Þeir eru tæknilega séð ekki leyfilegir, og erfitt að sjá utan frá hvar þeir eru, en fólk veit bara af þeim og þeir eru mjög vinsælir, ef maður vill drukkna í eigin svita og annarra. Ég hef aldrei farið, en það kemur líklega að því. Skandinavarnir og Kanarnir eiga mjög erfitt með að aðlaga sig þessu djammtempói, að fara ekki út fyrr en kannski eitt, en Íslendingurinn ég þekkir ekki annað.

Íbúðin er á besta stað í bænum, ég held það sé engin lygi, og almenningsgarðurinn hérna fyrir utan bjargar alveg lífi mínu í allri menguninni. Hann er líka fullur af lífi, t.d. bauð bæjarstjórnin upp á tónleika þar í gærkvöldi, reyndar með alveg hræðilegri tónlist, en það er sama, við hlustuðum, enda gátum við ekki annað, því sviðið er hér beint fyrir neðan. Í dag heyrði ég óm af trompeti, gítar og söng, og hélt einhver væri að hlusta á geisladisk, en þegar ég leit út um gluggann sá ég fjóra ekta mariachi-söngvara í fullum skrúða í garðinum fyrir neðan spila og syngja hástöfum. Reyndar er talsvert vinsælt í Rómönsku Ameríku að fá mariachi-söngvara í heimsendingu, enda er það þannig sem þeir vinna, ferðast á milli og spila og syngja. Ég fletti upp hvað kostar að fá mariachi til að koma, og það er kannski 15-20 þúsund kall fyrir fjóra gaura. Þetta þykir voða rómó, til dæmis ef bera á upp bónorð.
Svo eru alltaf einhverjir að æfa sig að djöggla, og um daginn voru tveir gaurar að leika sér að spila á blokkflautu og gítar. Ég myndi sem sagt segja að ég væri um það bil á besta stað í bænum, ef ekki heiminum, akkúrat núna.



7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahaha þetta er frábært!
Fyrsta flissið kom þegar ég sá Pipi, fannst það eitthvað fáránlega fyndið (reyndar búin að fá mér smá rautt) en svo magnaðist þetta með hverju orði... my god hvað það hlýtur að vera gaman! Ég hlakka svo til að koma! Ég sé að þú hefur bara fundið þína eigin sápuóperu eftir að þú hættir að þýða...

Orri sagði...

mjög skemmtileg færsla.

Þú færð samt mínusstig fyrir að syngja amazing grace, en ég skil svo sem að þig hafi meira langað að bonda við þetta fólk heldur en að eiga fullt af stigum.

Svanhvít sagði...

Nei, þetta er miklu skemmtilegra en sápa, sápur eru leiðinlegar ;) Hvenær ætlarðu að koma Eva? Jól?

Ég þoli ekki Amazing grace, það er í flokki með Traustur vinur og Ó Jósep Jósep yfir lög sem ég þoli ekki, en hvað gerir maður ekki... þá mega öll kúlstig eiga sig.

Nafnlaus sagði...

Já ætli ég verði ekki þarna kringum jól, við höldum þau kannski bara hátíðleg saman ;)

Unknown sagði...

Ohh hvað þetta hljómar allt spennandi!

Nafnlaus sagði...

Hélt ég hefði kommentað við síðustu færslu en það hefur eitthvað klikkað hjá mér... gaman að fá að fylgjast með þér, þetta hljómar mjög vel allt saman!

Kv. Þórdís skrudda.

siggaligg sagði...

vá hvað þetta hljómar vel. Dálítið eins og þú sért í miðri sápuóperu eða bíómynd eða eitthvað óraunverulegt.
kveðjur héðan úr rigningarsuddanum!