föstudagur, maí 07, 2004

Í dag er NO PANTS DAY. Til hamingju og megið þið vera í sem fæstum buxum.
Ég hef ekki staðið mig sem ofurbloggari síðustu daga, og égskýri það með því að ég hef ekki verið að læra nóg fyrir próf. Nú vænkast þó hagur því að tvö síðustu prófin nálgast og ég á örugglega eftir að lauma inn nokkrum fróðleiksmolum inn á milli, eins og þennan hér að ofan með buxnalausa daginn, sem ég las um hjá kórstúlku nokkurri.

Lesefni mitt þessa dagana er fjölbreytt, því ég er að lesa fyrir hljóðkerfisfræðipróf og miðaldabókmenntapróf, og mig langar að deila agnarögn af því með ykkur. Þetta er brot úr fornaldarsögunni Gríms saga loðinkinna og lýsir tröllkonu nokkurri sem að bjargar lífi Gríms þar sem hann lá í valnum eftir bardaga, en hann er í leit að heitkonu sinni, Lofthænu, sem hafði verið rænt:

„En er hann hafði eigi lengi legit, sá hann, hvar kona gekk, ef svá skyldi kalla. Hún var eigi hærri en sjau vetra gamlar stúlkur, en svá digur, at Grímr hugði, at hann mundi eigi geta feðmt um hana. Hún var langleit ok harðleit, bjúgnefjuð ok baröxluð, svartleit ok svipilkinnuð, fúlleit ok framsnoðin. Svört var hún bæði á hár ok á hörund. [...] Hún var í skörpum skinnstakki. Hann tók eigi lengra en á þjóhnappa hennar á bakit. Harðla ókyssilig þótti honum hún vera, því at hordingullinn hekk ofan fyrir hváftana á henni“

Þessi óskapnaður bað síðan Grím um að kyssa sig, en hann svarar: „Þat má ek engan veg gera, svo fjandsamlega sem mjer lízt á þik“ En hreinskilnin dugaði honum ekki langt, því að hún hótaði honum lífláti annars. Hann þorði auðvitað ekki annað, og var hissa þegar hann kyssti hana, því: „Eigi þótti honum hún svá ill viðkvámu sem hún var hrímuglig at sjá.“ Þá neyddi hún hann til að sofa hjá sér, sem hann og gerði, þó honum væri nú ekki mikið um það.

Það kom svo líka á daginn, að tröllkonan var í álögum og var í alvörunni heitkona Gríms, hún Lofthæna! Til að losa hana úr álögunum þurfti einhver að þiggja af henni líf, kyssa hana og sofa hjá henni.

Af þessu er hægt að draga þann lærdóm að maður á alltaf að láta ljótar konur bjarga lífi sínu ef maður getur. Og að þó þær séu með hor, eigi maður samt að kyssa þær.

Góðar stundir og gleðilegan buxnalausa dag, vinir mínir.

Engin ummæli: