miðvikudagur, desember 01, 2004

Orðræða nútímakonu

"Hugmyndaramma".










Datt einhverjum í hug "amma sem fær hugmynd"?
Það gerði ég.
Þetta orð var í grein sem ég var að lesa, og ég las orðið eitt og sér, úr samhengi. Auðvitað var verið að tala um "ramma utan um hugmynd", ég hef líklega verið þreytt.

Ég lærði líka nýtt orð í greininni: lo. "limhverfur". Það var verið að tala um "limhverfa orðræðu feðraveldisins". (já, greinin var um femínisma). Reyndar er orðið "orðræða" nýorðið hluti af virkum orðaforða mínum (hvað eru mörg "orð" í því?), og orðið "pómó" (sem stytting á póstmódernisma) finnst mér svo hallærislega kúl að ég verð eiginlega að nota það líka!

Er einhver sem hefur tekið eftir nýjum orðum í virkum orðaforða sínum þessa önnina? Ég heyri æ fleiri tala um "viðbótarlífeyrissparnað" og "séreignarlífeyrissjóði" eins og þeir séu gamalgrónir KB-bankamenn, en skilja menn almennilega hvað þeir eru að tala um?

"No, Davíð Oddsson no me gusta nada"
En talandi um orð og skilning, hversu óþolandi er það að vera í munnlegu prófi í spænsku og vera gefið þemað "política" og þurfa að babbla á spænsku barnamáli um kosti og galla kvótakerfisins, inngöngu í Evrópusambandið og Íraksstríðið? En ég fór fyrst í hnút þegar ég þurfti að þýða orðið "afturhaldskommatittsflokkur" á spænsku með litlum árangri. Það er ótrúlegt hvað manni finnst maður stundum vitlaus, þegar maður veit hvað maður ætlar að segja, en hefur ekki orðin yfir það. Þess vegna skil ég ekki af hverju ég er að læra öll þessi tungumál, í staðinn fyrir að einbeita mér að einhverju einu. Þetta er einhver bölvuð þrjóska... de puta madre...

Engin ummæli: