þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Jólalag Baggalúts klikkar aldrei, og er reyndar alveg frábært í ár... Það er hægt að ná í það hérna
. Allir að gera það núna.

Annars er ótrúlegt að það hafa ekki orðið til ný góð jólalög lengi, hvorki á Íslandi né í útlöndum sem ná vinsældum í útvarpi, það er eins og við séum dæmd til að hlusta á sama "gefðu mér gott í skóinn jólasveinninn kemur í kvöld við óskum þér góðra jóla" aftur og aftur. Af hverju semja pottþéttar hljómsveitir eins og Stuðmenn ekki eitthvað skemmtilegt jólalag sem gengur í landann? Síðasta íslenska jólalagið sem varð virkilega vinsælt hér á landi finnst mér eiginlega hafa verið Jólahjól, sem verður að viðurkennast að er orðið mjög þreytt, þó það hafi verið mjög gott á sínum tíma. Okkur vantar nýtt Jólahjól!!

Og það er sama hve oft textarnir á þessum amerísku poppjólalögum eru þýddir, og hvað margir popparar taka þau, þau eru bara orðin ofboðslega lúin og þreytt og eiga skilið nokkurra ára frí. Þá myndum við kannski læra að njóta þeirra á ný.

Kannski finnst fólki erfitt að semja ný jólalög því ef þau eiga ekki að fjalla einungis um gjafir og mat og stress eins og svo mörg íslensk jólalög frá 9. áratugnum, þá lendir maður í vandræðum, því hvað er þá eftir? Er í fullri einlægni hægt að semja lag um friðinn og rósemdina og helgina sem gagntekur mann um jólin á milli þess sem maður öslar slabbið dauðþreyttur rétt áður en búðirnar loka í leit að réttu perunni í jólaseríuna eða fullkomnu gjöfinni handa ömmusystur sinni? Kannski eru jólin ekki lengur mjög vænleg til að semja um, það er varla einu sinni hægt að syngja um hvíta jörð, því hvað gerist það oft á jólunum núna? Verða jólalög bara að fjalla um jólastress héðan í frá?

Má ég þá frekar biðja um "Kósíheit par exellans" með Baggalúti!

Góða aðventu!

Engin ummæli: