laugardagur, júlí 30, 2005

Hvar er Harry Potter?

Ég hef aldrei verið mikill verslunarmannahelgaraðdáandi. Venjulega hef ég reynt að vera í útlöndum (og tekist vel) þessa helgi til að þurfa ekki að ljóstra því upp að ég nenni bara ekki að standa í því að fara til Eyja, Akureyrar, á Eldborg, Kántríhátíð eða hvað þetta hefur heitið í gegnum árin. Ég hef aldrei farið á útihátíð, og hef ekki mikinn áhuga á því, þó ég búist við því að einhvern tímann verði ég nú að prófa það.

Í ár er ég ekki í útlöndum, og hafði hugsað mér að gera eitthvað með vinunum, en svo komst ég að því að vinir mínir eru annaðhvort að vinna, meira og minna uppteknir við annað, eða fyrir norðan taka í sundur bílvél... Svo ég ákvað að leita í annan vin, sem hefur aldrei brugðist, ég ákvað að kaupa mér nýju Harry Potter bókina og þá skipti ekki máli hvar ég væri, ef ég hefði bara Harry, Hermione, Ron, Snape, Voldemort og þá félaga... svo ég fór á Selfoss í gær í þeim eina tilgangi að kaupa bókina. Fór í Nóatún, þar sem er pínulítið Eymundsson horn, en ekki var bókin þar!Ég fór að spyrjast um, og komst að því að það er bara ekki hægt að kaupa Harry Potter á Selfossi!

Ég gafst ekki upp, og fór í Hveragerði, en ekki var það hægt þar heldur. Þá rann það upp fyrir mér að hvorki í Hveragerði né á Selfossi er ein einasta bókabúð! Er það ekki alveg óforskammað! Ég hef nú mikið verið á Selfossi í gegnum árin, og alltaf fundist eitthvað vanta, fyrst hélt ég að það væri kaffihús sem vantaði, en þegar það kom (Kaffi Krús) þá vantaði ennþá eitthvað, og nú veit ég hvað það er. Í bæ þar sem meira að segja er bíó, og örugglega hátt í tíu föndurbúðir, er engin bókabúð!

Kominn tími á harðort bréf, það er að segja ef ég vissi á hvernæ ég ætti að stíla það.

Engin ummæli: