mánudagur, júlí 04, 2005

Túristar í Köben

Við erum búin að krúsa Kaupmannahöfn síðustu daga, í dag aðallega umkringd af skítugum Íslendingum með armbönd. Í gær á Bakken (mitt fyrsta skipti, ótrúlegt nokk), hestaferð að skoða dádýr í skóginum, svo nautasteik á Jensens böfhus, í dag vandbussen (sigling í höfninni og inn í borgina í þröngum síkjum) og túristarútuferð. Hún var frekar fyndin, eða það er að segja sataníski rútubílstjórinn sem keyrði okkur. Hann var greinilega svolítið pirraður og þegar við vorum komin á Langelinie og rútan fyrir framan hann stoppaði lengur en honum líkaði hvæsti hann djöfullegri röddu "FOR SATAN!" "JESUS CRIST" og "FOR HELVEDE", og ég lýg því ekki að röddin var eins og hún kæmi úr iðrum jarðar, maður bjóst við að heyra næst eitthvað eins og "I AM THE LORD OF HELL FIRE" - en þegar rútan fyrir framan fór ekkert af stað öskraði hann í kallkerfið: FIVE MINUTES TO SEE THE LITTLE MERMAID!" og ég horfði á viðbrögðin hjá fólkinu í rútunni, það kipptust allir til, og hrökkluðust út, þorðu ekki annað en fara að sjá hafmeyjugreyið. Hann öskraði svo á eftir okkur "DO NOT FEED THE MERMAID". Svo hvæsti hann, "OG EF ÞIÐ ERUÐ EKKI KOMIN EFTIR FIMM MÍNÚTUR ÞÁ FER ÉG SAMT". Það sem eftir var af ferðinni öskraði hann af og til eitthvað eins og "GO OUT HERE TO SEE THE CHANGE OF THE QUEEN´S GUARDS" "ANYBODY WANTS TO TAKE A COFFEE WITH THE QUEEN?", og alltaf hrökk mannskapurinn í rútunni jafnmikið við. Svo heyrði ég hann tala "eðlilega" á eftir, þ.e. í samræðutón, en alltaf með sömu rödd, greinilegt að félaginn hefur drukkið of mikið öl og reykt for mange smøger i sit liv.

Bátsferðin var góð, svo ég segi ekki frá henni.

Í kvöld fórum við svo í Tívolí eins og tilheyrir Kaupmannahafnartúr. Þar vann Reynir bangsa sem hann gaf mér eftir að sýna glæsilega takta í körfuboltakasti, þetta var annar bangsinn sem hann vann á tveimur dögum, hinn í gær á Bakken í golfleik.

Amma var löngu búin að ákveða að bjóða okkur barnabörnunum fínt út að borða á Færgekroen (Ferjukrána)í Tívolí, en þar hefur hún farið reglulega örugglega a.m.k. síðustu hálfa öld og fengið sinn síldarplatta eða Mørbrad gryde, Pariserbøf og rødbeder og annan ekta danskan mat, og ætlaði aldeilis að sýna okkur hvað þetta væri nú gott. Svo ég hringdi til að panta borð, þeir sögðu mér að mæta bara, þeir væru með borð. Svo þegar við komum þurftum við nú samt að bíða í korter, og að okkur fór að læðast illur grunur, því nú var komin bruggverksmiðja þar sem áður voru borð fyrir gesti, og nú stóð á öllum skiltum "Færgekroens bryghus", og matseðillinn var eitt blað með 2 aðalréttum. Við hugsuðum að þegar okkur væri vísað til borðs þá fengjum við nú annan matseðil og allt yrði eðlilegt, en nei, það kom sami snepillinn, og þá varð amma gamla ekki kát. Það var búið að skipta út reykta álnum fyrir Osso buco og ekkert rauðkál að fá heldur rucola... Við fórum útt fussandi og sveiandi og lofuðum að koma aldrei aftur. Allt .arf nú að breytast, og við hlógum af því að við vorum nýbúnar að horfa á tvo síðustu þættina af Matador þar sem allar breytingar eru einmitt svo illa séðar, en óhjákvæmilegar, og einmitt frá þeim tíma þegar amma var ung. svo við enduðum á næsta stað, ekki mjög dönskum, reyndar austurrískum, hét Edelweiss og serveraði þessa fínu gryde með kalvekød og bratkartoffler, og við amma fengum okkur rauðvínsglas, sem gravøl fyrir Færgekroen.

Engin ummæli: