fimmtudagur, mars 06, 2008

Ofsalega var ég fegin í morgun þegar ég opnaði risagluggann á herberginu mínu að finna að það var sæmilega kalt í dag. Auðvitað sól, en kaldara en síðustu daga. Ég spreyja á mig sólarvörninni sem ég keypti í USA og finnst ég vera að þekja mig í klístruðum eiturefnum sem smjúga inn í húðina og loka öllum náttúrulegum útgönguleiðum svita. Svo bæti ég nr. 70 í andlitið, og þá er ég tilbúin í daginn. Opna dyrnar með því að taka úr bæði litla lásnum og tvöfalda hlussulásnum og læsi aftur þegar ég er komin út. Hlusta á Villa Vill eða Scissor Sisters eða Joni Mitchell eða hvað sem er næst á dagskrá í mp3-spilaranum á leiðinni í metróinu, 7 stopp en engin skipti, en viðbjóðslega troðið á stundum. Á mánudag mátti lesa um það í blöðunum hvað metróið og míkróarnir (strætóarnir) voru stappfullir allan daginn því þetta var fyrsti dagurinn hjá svo mörgum eftir sumarfríið (Almenningssamgöngukerfið í Santiago er kapítuli út af fyrir sig og um það skrifa ég einhvern tímann).

Á campus tekur á móti manni risastytta af Jesú* og allt er grænt og mikið um tré. Þetta er stærsti campusinn, San Joaquin, (heilagur Jóakim, já, það heitir allt eftir dýrlingum hérna) og sá nýlegasti. Mín háskólabygging, Facultad de Letras, er ein fjögurra hugvísindabygginga sem mynda nokkurs konar garð í miðjunni, þar sem nemendur slappa af milli tíma.

Ég er búin að fara í svona sjö mismunandi tíma og litist vel á suma, verr á aðra. Ég útiloka strax kennara sem mér finnst ómögulegt að skilja, t.d. þann sem var svo ægilega smámæltur og muldraði allt í barm sér. Ég veit af fenginni reynslu að með svoleiðis kennara læri ég bara helmingi minna, þótt kennarinn sé fínn, sem og kúrsinn. Mér sýnist ég því ætla að enda með bara kvenkyns kennara, enda held ég að ég skilji þær betur. Annars er gaman að sjá hvað fræðimenn alls staðar í heiminum eru eins. Sú sem er yfir þýðingafræðideildinni kvartar yfir að fá ekki nægt fjármagn frá skólanum (finnst ég kannast við það), kennarinn í túlkun lítur niður á þá sem ekki hafa lært túlkun í skóla og hræðsluleiðin er líka farin hér við að sigta óæskilega úr fjölmennum kúrsum (“textarnir sem þið þurfið að lesa eru mjög erfiðir, sumir næstum óskiljanlegir”). Nemendurnir eru líka eins; kennarinn spyr hver bjóði sig fram til að halda fyrirlestur um fyrstu greinina sem á að lesa, og bíður svo í svona mínútu (langur tími) eftir svari en fær ekkert. Enda ekki hér eins og í Bandaríkjunum að maður fái hærri einkunn fyrir að láta mikið fyrir sér fara í tímum.

Ég verð líka að segja frá einum kennaranum, hann leit svo yndislega furðulega út. Hann var í snjakahvítri skyrtu, fínum buxum og grænu vesti með rautt bindi upp í háls, um 35 ára, af þýskum ættum (eins og margir hér) greinilega massaður, með blá stingandi augu, skipt ógeðslega nákvæmlega í miðju og lokkarnir sleiktir aftur á hnakka, tveggja daga skeggrót og hrikalega myndarlegur, og eiginlega bara á allan hátt eins og Súpermann að reyna að klæða af sér súpermannleikann. Háskólakennarafötin og þessi hræðilega greiðsla gerðu hann eitthvað svo æðislega hlægilegan. Svo fór hann að tala um bókmenntir, kúrs sem mig myndi alveg langa til að sitja, en ég fæ ekki einingar fyrir hann, og þá sá maður hvernig hann ljómaði og ég varð að viðurkenna að útlitið er ekki allt, Clark Kent getur alveg verið bókmenntafræðikennari.

Eins og stendur ætla ég að taka kúrs í túlkun, þ.e. að læra tæknina sem túlkar nota við lotutúlkun (eitthvað sem ég hélt að væri lífsins ómögulegt að læra), og svo fleiri þýðingafræðikúrsa, teoríu og fleira, og kannski einn um konuna í Chile (Eftir að hafa lesið leikritið Dómínó eftir Jökul Jakobsson finnst mér alltaf erfitt að tala um “konuna” og stöðu hennar því það er svo æðislega tekið fyrir þar. En kúrsinn er semsagt um konur og menningu þeirra í Chile).

Ég finn alveg fyrir að það er betra að vera meistaranemi en á grunnstigi, því kennararnir taka betur á móti manni, sérstaklega í þýðingafræðinni, þegar ég segist vera að læra það. Námið semsagt leggst ágætlega í mig, þótt einingakerfið sé frústrerandi, því það sem heita 8 einingar hér, og er heill kúrs með ágætlega mikilli vinnu, reiknast yfir í 2,4 einingar á íslenska skalanum.

Ég er satt að segja ekki búin að gera mikið annað en að fara í skólann og vera ekta skiptinemi, spjalla við hinar ljóshærðu stelpurnar sem eru hér í alveg sama tilgangi (a.m.k. frá Chile-búum séð) og eru langflestar frá “Los Estados Unidos”, þ.e. Bandaríkjunum. Vildi bara að ég hefði meiri “cojones” og þyrði að tala meira við fólkið héðan. Það kemur.

Jú, fyrsta daginn fór ég í partí með Gonzalo vini mínum, það var arkitektapartí í alveg æðislegu húsi, eldgömlu með bleikum veggjum skreyttum með alls kyns gömlu dóti, höttum, byssum, gömlum ljósmyndum og málverkum, og rosalega hátt til lofts eins og á byggðasafni eiginlega, eða í höll. Svo var lítil sundlaug með engu vatni úti í garði og þar sátum við og spjölluðum og dönsuðum, og ég reyndi að skilja eitthvað af chile-slangrinu. Svo var mér skutlað heim að dyrum, eftir stopp á bæjarins bestu, þar sem allir (nema ég) fengu sér pulsu. Hér eru pulsur í pulsubrauði með alls kyns sósum, tómatsósu, majónesi, osti og avókadómauki, sem er rosalega mikið borðað hérna og heitir “palta”, og það er eiginlega svo mikið í brauðinu að maður finnur ekki pulsuna og það er ómögulegt að borða þetta. En ég býst við að ég verði ekki svo lengi að komast upp á lagið með það.

Á morgun er útlendingagrill og partí sem ég ætla í, það er hellingur af allra þjóða kvikindum hérna sem maður verður líklega að kynnast aðeins. Það er heill her manna sem snýst í kringum okkur og nóg að gerast, en ég finn að ég hef ekkert endalausan áhuga á því, ég kom ekki hingað til að hanga með tvítugum Könum og kvarta yfir dónaskapnum í fólkinu hér.

Nú er ég hrikalega svöng, enda berst einhver frábær matarlykt úr eldhúsinu, best að elda sér eitthvað. Yfir og út.

p.s. Setti myndir á Facebook. þeir sem ekki eru þar geta sent mér póst og ég sendi link.

*Talandi um Jesú, sáuði Jesus Christ Superstar hjá Borgarleikhúsinu? Hér ganga menn skrefinu lengra og setja upp “Jesús Cristo Metalstar”.

3 ummæli:

Tóta sagði...

Gaman að lesa :) Hafðu það gott.

Snorri sagði...

Hæ Svanhvít, gaman að lesa lýsingarnar frá Chile. Kannast við þetta með hegðun Bandaríkjamanna í tímum hér í NY. Þeir ætla alveg úr axlarlið með hendina uppí loftið ef kennarinn leyfir sér að spyrja (beint, óbeint, rhetoriskt - skiptir ekki máli)svo mikill er æsingurinn. Og ég auðvitað þögull sem gröfin, bældur.is eins og maður er af guði gerður.
Náðirðu að sjá tvíbbana áður en þú fórst ?
Kv. Snorri

Svanhvít sagði...

Æ það er svo vandræðalegt þegar nemendur reyna að svara retórískum spurningum kennara...

Já, ég rétt náði að sjá krílin áður en ég þaut útá flugvöll, himnesk, þessar elskur. Og ekkert mál að þekkja þau í sundur!