Ég sit hér í hitanum í nýja herberginu mínu með alltof heita tölvuna í kjöltunni, eftir að hafa loksins fundið réttu innstunguna, og ætla að skrifa ferðasöguna eins og hún gæti hljómað hingað til. Hún verður líklega alltof löng og ítarleg, en eins og svona bloggferðasögur eru gjarnan er hún mest fyrir mig sjálfa, og kannski geta einhverjir aðrir haft gaman af líka. Þeir sem vilja stuttu útgáfuna geta fengið hana svona: Allt gengur eins og í sögu (nei, eiginlega ekki, því í sögum kemur alltaf eitthvað upp á, og það hefur allt gengið svo smurt að það yrði mjög leiðinleg saga). Allavega hef ég það alveg frábært og er bara nokkuð ánægð með mig að vera komin hingað þvert yfir hálfan hnöttinn.
Ég flaug með Árna Guðbjartarmanni til Orlando 25., því hann var einmitt að útskrifast úr HÍ og tók sama flug og ég út. Átta tímar í flugvél með tveimur fullum íslenskum miðaldra golfklúbbum á leið í Flórídagolf voru ekki það sem við helst hefðum óskað okkur en það hjálpaði að hafa þjáningarbróður. Og kæra frú fyrir aftan mig, þegar maður er búinn að klára allan bjórinn í flugvélinni og tala svo hátt alla leiðina að í fimm sætaraða radíus mátti heyra hvert orð, þá kvartar maður ekki yfir kjökri í smábarni sem hefur setið undir þessu í á áttunda tíma. Karlarnir voru hins vegar greinilega hinir mestu íþróttagarpar og vildu vera vel tilbúnir fyrir golfið því þeir nýttu hvert tækifæri til að ráfa um gangana með viskíglösin til að forða blóðtappa og æfa stirð miðaldra hnén. Ég hef aldrei séð jafnfrústreraðan flugfreyjuflota og þann sem þurfti að koma þeim í sætin sín með reglulegu millibili.
Ég var svo væn að koma færandi hendi með kvef og hálsbólgu handa Guðbjörtu minni, sem lagði mig fyrst í rúmið og svo hana, sem var auðvitað sérstaklega slæmt fyrir hana, því hún er einmitt í midterms prófunum sínum.
Út af þessu öllu kom það í Árna hlut að lóðsa mig um Gainesville. Við náðum að komast í gegnum ótrúlega margt á skömmum tíma, og flest, já eða allt, sem við gerðum tengdist náttúrunni. Við fórum í grasagarð, náttúruvísindasafnið, háskólasvæðið (æði) á kanó á háskólavatninu (já, háskólinn hefur sitt eigið stöðuvatn fyrir nemendur sína til að sigla á). Við skoðuðum fuglana (ég sá skallaörn!), stjörnurnar, leðurblökurnar hundrað þúsund sem búa í sátt og samlyndi uppi í þaki á stærð við strætóskýli, og Devil´s Millhopper (jarðfræðilega holu sem myndast í limestone-bergið sem er þarna undir öllu) og að sjálfsögðu kíktum við á krókódílana, sem mara þar í hálfkafi í hverjum drullupolli eða láta bakast á bökkunum. Þeir voru æðislega stórir og ljótir og feitir og ég var bara nokkra metra (um 7) frá einum, sem var miklu stærri og feitari en ég og hefði getað graðgað mér í sig hefði hann kært sig um. Það fer bara alltof mikil orka í að éta okkur mannfólkið að þeir halda sig víst oftast við minni dýrin.
Náttúrulífið í Gainesville er magnað, en það eru líka veitingastaðirnir (og allur þessi fjöldi!). Ég fór á þó nokkra af þeim sem sælkerarnir Guðbjört og Árni hafa gefið hvað hæsta einkunn, og gat í hvert sinn furðað mig á hvernig þjónarnir fóru að því að vera svona súperhressir kúnna eftir kúnna. Stórmarkaðsferðin var líka eins og ferð í skemmtigarð fyrir mig. Valmöguleikarnir eru svo miklir að það þyrmdi yfir mig þegar Árni lét mig velja úr um fimmtán mismunandi gerðum af hummus. Það hlýtur að vera mikið um slæm valkvíðaköst í bandarískum stórmörkuðum.
Í gær kvaddi ég svo Guðbjörtu og Árna, sem voru mjög góðir gestgjafar, og ég mæli með Árna sem Gainesville-guide, hann er fullkominn í hlutverkið. Takk fyrir mig, bæði tvö.
Við tók þriggja tíma flug til Panama. Við hliðina á mér sat drengur sem fyllti vægast sagt vel upp í sætið sitt (og mitt) og las einhverja spin-off Star Wars-bók alla leiðina, nema í flugtaki og lendingu því þá laut hann höfði næstum niður í gólf og andaði djúpt og ört í nokkrar mínútur svo ég var farin að hafa áhyggjur. Þegar vélin lenti hafði ég rétt tíma til að fara á klósett (um það mun ég seinna skrifa bloggbókina Pissað í Panama) og hoppa upp í næstu vél, til Santiago. Það flug var sex klukkustundir og ég sat í fyrstu röð og þurfti að reigja mig til að sjá sjónvarpið og þar með bíóið, sem var mynd númer tvö þann daginn um ástamál og barnauppeldiskrísu ekkils sem er rithöfundur og dálkahöfundur (man ekki hvað sú fyrsta hét en sú seinni hét The Martian Kid eða eitthvað svoleiðis). Ekklar eru einstaklega vinsælir í Hollywood-myndum í seinni tíð, tekið eftir því?
Þegar ég lenti, klukkan fimm um morguninn 1. mars, eftir að hafa verið á ferðinni síðan kl 11 um morguninn í Orlando, tók ég svokallaðan Transfer – mjög sniðugt – eins og Skutlan á að virka, nema auðvitað mjög sniðugt á flugvelli. Maður segir hvaða hverfi maður ætlar í og borgar 5000 pesóa (tæpur 500 kall) og tekur svo bíl með öðrum á leið í sama hverfi, og er skutlað upp að dyrum. Þegar ég kom þangað tók á móti mér systir Rodrigo, stráksins sem á íbúðina (hún býr víst ekki hér en svona húsgagn, skildist mér). Allir í íbúðinni höfðu farið á djammið saman og voru tiltölulega nýkomnir heim, og systirin var því ágætlega hress. Mér líst mjög vel á þetta fólk, hresst og skemmtilegt. Rodrigo dýrkar Björk og fór á tónleikana hennar í Santiago í nóvember, og er að bíða eftir að Sigur Rós komi líka.
Íbúðin er eldgömul og æðisleg, á fjórðu hæð, með skítugum veggjum og skápum, ljótum og blettóttum teppum og „besta útsýni í Santiago“ að sögn Rodrigos. Það er líka alveg satt, frábært útsýni yfir fallega Bustamante-garðinn og Cerro Santa Lucía, gróðri vaxna hæð í borginni miðri. Herbergið mitt er ágætlega rúmgott með stórum gluggum og undarlegum skrautmunum. Skemmtilegust þykir mér myndin af Maó formanni.
Á daginn er um þrjátíu stiga hiti og helmingi minna á næturnar og ég er þegar búin að heyra þrisvar sinnum hvað ég sé hvít og þurfi að vera dugleg að bera á mig sólarvörn. Ég er löngu búin að komast að því að fólki alls staðar í heiminum er mjög umhugað um húðina á mér (engar áhyggjur, ég á sólarvörn nr 70 og nota hana).
Ég fór í heillangan göngutúr í dag niður í bæ. Ég var mest hissa á því hvað mér fannst allt vera spænskt hérna. Sömu fyrirtæki (bankar, símafyrirtæki) og spænskar matvörur í búðunum, en í súpermarkaðnum er meira úrval en í spænskum búðum af ýmsum vörum, t.d. bandarískum. Ég segi meira um borgina þegar ég hef séð meira.
Í kvöld fer ég líklega í partí með Gonzalo vini mínum sem ég kynntist á Spáni 2005, hann er búinn að vera mjög liðlegur með alla hjálp og ég má hringja í hann hvenær sem er sólarhringsins, sagði hann. Það er gott að vita.
Nú bið ég bara að heilsa ykkur öllum, ég bjarga mér. Ekki vera hrædd um mig, mamma.
13 ummæli:
Uffff....I was thinking about You last few days. I am glad you are save and everything is fine.
Hugs and kisses. magda.sd
hæ svanhvít skemmtileg ferðasaga og hafðu það gott kveðja Mamma
mm. hljómar mjög vel...
Vildi bara þakka þér fyrir að lána mér leggings í draumi í nótt. Mjög almennilegt af þér, þar sem ég var að fara að keppa í Útsvari á nærbuxunum.
Þegar ég las þessa færslu þá rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna blogg eru til.... endilega vertu áfram dugleg að skrifa og segja frá ævintýrunum í útlandinu.
Úff, ég er svo spennt fyrir þína hönd, þetta er æði! Best að fara að læra eða eitthvað til að róa sig niður...
Eru sætir strákar?
Sammála þunnu Elínu, vertu dugleg að blogga, ótrúlega gaman að lesa :)
Þura (á öðrum afréttara)
Takk allar! Ég skal reyna að blogga eins og ég get, sérstaklega núna þar sem mér hefur verið lofað nýrri síðu...
Hlíf, ég gat nú ekki farið að láta þig koma fram á naríunum og gera þig að fífli.
Það fyndna er samt að ég á ekki einar einustu leggings.
Þura: AUÐVITAÐ eru sætir strákar.
ilike :)
STÓRT KNÚS frá batnalandi :)
En enginn jafnsætur og við Ingi Einar, væntanlega?
Nei hvernig lætur þú, Arnór! Það jafnast ekkert á við ykkur, rjómann af íslenskum karlpeningi.
ok en hvernig er með fatabúðir þarna? geturðu keypt þér leggings svo þú getir farið að lána mér í draumi? Alveg ótækt að hún Hlíf taki svona einu buxurnar sem ekki eru til!
haltu áfram að skrifa ég skemmti mér stórvel við lesturinn.
Sigríður svefndrukkna á þriðja afréttara.
Já, hér flæðir allt í leggings, það er bara eiginlega of heitt fyrir svoleiðis!Sigga þú veist að þú mátt fá lánaðar allar leggings sem ég á ekki!
Hæhæ Hattyúfehérke,
"Þura: AUÐVITAÐ eru sætir strákar."
hvar eru myndirnar? Sannaðu, og þá kem ég í heimsókn:.
Skrifa ummæli