laugardagur, mars 08, 2008

Salsa...

...er erfitt. Púff. Eftir útlendingagrillið í gær fór ég á salsaklúbb með stelpum frá Chile, sem auðvitað fengu dansinn í sig með móðurmjólkinni, svo ég átti fullt í fangi með að halda í við þær. Dansaði við nokkra gamla karla sem vildu endilega kenna mér, það var ágætt. Ég ætla að verða orðin sæmileg í lok árs.
Gaurinn sem við borguðum aðgangseyrinn varð svo þrumu lostinn yfir að fá svona gringu* inn á staðinn að hann var eiginlega orðlaus, muldraði 'diosa' og fiskaði svo upp úr jakkavasa á snaga boðsmiða á staðinn "svo ég kæmi aftur". Ljóshært er vinsælt, það er á hreinu.
Ég skil þessa dýrkun á ljóskum alls ekki, eins og konurnar hér eru stórglæsilegar og þúsund sinnum flottari en ég. Í gær var ég að skoða í búðarglugga (á prjónabúð, fullt af þeim hér, sem betur fer) og heyri í manni sem situr í bíl og er að tala í gemsann og segja "Ég er að horfa á ljóshærða stelpu hérna á horninu..." Þá fór ég svo ég heyrði ekki afganginn, en ég skil ekki hvað í ósköpunum manneskjan á hinum endanum hefði átt að gera við þær upplýsingar.)
Ég segi þetta meðvituð um að á Íslandi er ég hin allra venjulegasta stelpa (og ekkert að því), en hér er ég 'headturner', sem mér finnst fáránlegt meira en nokkuð annað. Það er erfitt að tala um þetta án þess að hljóma montinn, en þetta er nú bara mannlífsstúdía, að mínu mati mjög áhugaverð.
Þessir karlar meina ekkert með þessu, eru bara að segja það sem þeim finnst, eða það sem samfélagið ætlast til að þeir segi/finnist. Þetta gerist auðvitað ekki á campusnum, heldur úti á götu, sérstaklega í fátækari hverfum, og það eru aðallega karlar í eldri kantinum sem láta svona. Þetta er svo eðlilegur hluti af lífi þeirra, þótt manni þyki stórfurðulegt að vera kölluð 'gyðja' eða 'dásamleg' úti á götu, alveg óháð því hvað manni finnst maður ómögulegur eða myglaður sjálfur.

*gringa (kvk) og gringo (kk) eru venjulega notuð yfir Bandaríkjamenn í Suður-/Mið-Ameríku en merkja eiginlega líka bara allir útlendingar sem eru vestrænir í útliti.

2 ummæli:

Regnhlif sagði...

Æ, það er svo gott fyrir sálina að vera kallaður 'diosa' endrum og sinnum.

(en þú ert náttúrulega líka mjög ljóshærð. Ekkert skol eitthvað)

Bastarður Víkinga sagði...

Ertu að reyna að snúa þig útúr gyðjuhlutverkinu?