sunnudagur, desember 14, 2003

„Meginreglan er sú að hægri hausinn er „þrengri“ í einhverjum skilningi en sá vinstri. Gæta þarf þess vel að hausar séu réttir og víxlist ekki“

Verðlaunagetraun: Hvað er verið að tala um í ofangreindum texta?


Vissir þú að...

...á japönskum kvennaklósettum er sérstakur „hávaðatakki“ til að ýta á á meðan maður er að pissa. Þetta er tilkomið því að japanskar konur fara svo hjá sér ef einhver heyrir þær pissa að þær sturtuðu alltaf niður í sífellu til að yfirgnæfa hljóðið. Gífurleg vatnseyðsla varð af þessum sökum og því var brugðið á þetta ráð. Og ég hélt að við værum pjattaðar hér á landi!

Stjörnugjöf

Nú er ég búin að fara á þrenna aðventutónleika á síðustu vikum og finnst við hæfi að koma með skriflega útlistun á þeim.

1) Aðventutónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju 6. des kl. 17.00.
Nú hef ég fjórum sinnum farið á nákvæmlega eins tónleika hjá þessum kór, þar sem afi býður okkur elstu badnabödnunum alltaf, og hef alltaf haft gaman að. Í ár var engin undantekning þar á, en ósköp er maður farinn að þekkja prógrammið vel hjá þeim.. Ég held samt að bestu svona tónleikarnir hafi verið í fyrra þegar Jóhann Friðgeir elskan mín söng. Í ár var það söngkonan Elín Ósk sem þandi raddböndin til hins ýtrasta, en henni tókst ekki að heilla mig, of gróf rödd fyrir þessi fínu jólalög. Eitt hef ég út á Hallgrímskirkju að setja, og það eru bölvaðar súlurnar. Einhver myndi segja, „já en þær verða nú að vera til að húsið haldist uppi“ en mér finnst fáránlegt og óskiljanlegt að arkitektinn hafi látið sér detta í hug að blokka sýn helmings tónleika/messugesta með risasteindröngum. Gátu þær ekki allavegana verið gegnsæjar? Því allir vita jú að maður fer í messu og á tónleika einungis til að horfa á flytjendur/guðsmenn.
Bréfaklemmur:

2) Graduale Nobili, Langholtskirkja, 10. des kl. 20.00
Nobili stendur alltaf fyrir sínu, en ég er nú líka grúppía númer eitt og er að plotta hvernig ég get laumað mér inn í kórinn. Planið er að bjóða mig fram sem rótara, pallabera og haldklæðahaldara og whatnot, þá læri ég lögin svona meðfram, stel mér nótu mog æfi heima í einrúmi. Svo þegar einhver kórstúlkan veikist rétt fyrir tónleika af dularfullum ástæðum kem ég askvaðandi og bjarga deginum því ég kann öll lögin. Kóstjórinn heillast af frammistöðu minni og tekur ekki annað í mál en að ég haldi áfram. Já... my demonic plan is almost perfect....
Annars voru tónleikarnir góðir eins og alltaf, og verkið Ceremony of Carols var auðvitað toppurinn, og ekki sakaði frábær einsöngur Láru Bryndísar og ÞÓRUNNAR VÖLU. Best við tónleikana var þó að ég fékk ókeypis inn á þá með því að vera miðasali við innganginn, sem ég var búin að heimta með löngum fyrirvara. (já, þetta er hluti af planinu)
Bréfaklemmur:

3) Skálholtskór, Barna og kammerkór Biskupstungna, Diddú og Bó Halldórs. Skálholtskirkja, 13. des kl. 17.00.
Þessir árlegu aðventutónleikar kóranna í tungunum voru tímamótatónleikar á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi var í fyrsta sinn selt inn á tónleika í kirkjunni hafandi fengið leyfi til þess hjá hæstráðandi. Í öðru lagi, og þetta er alveg ótrúlegt, þá leyfði víxlarinn (Sr Sigurður vígslubiskup) að klappað yrði í lokin, þó að auðvitað mætti ekki klappa milli laga. Auðvitað hefur áður verið selt inn í kirkjuna og oft verið klappað, en aldrei áður með leyfi! Tel ég þetta mikla framför og nóg til að gefa tónleikunum a.m.k. 3 bréfaklemmur. Hinar tvær fá kórar og einsöngvarar fyrir frammistöðu sína, og Þórir Baldursson fyrir æðislegar Disney/rjómatertuútsetningar á alþekktum og minna þekktum jólalögum. Mér leið ekki eins og ég væri í Skálholtskirkju, heldur að horfa á Disneymynd um barn með stór augu sem tekur að sér lítið sætt dýr með ennþá stærri augu og leyfir því að vera hjá sér um jólin. (Af hverju hefur svoleiðis mynd ekki verið gerð af Disney?). Mér fannst samt hallærislegt af Bjögga að vera sá eini með mæk, sérstaklega þegar hann var að syngja með kórnum. Skálholtskirkja hefur svo magnaðan hljómburð að það er óþarfi að magna hann eitthvað meira upp. Mamma fær líka plús fyrir að bjóða okkur Steina og pabbi fyrir að skutla okkur. Þess vegna fá tónleikarnir (og dagurinn allur) 7 bréfaklemmur.

Engin ummæli: