mánudagur, desember 01, 2003

Nóatún í gær, síðdegis.
Ungur maður í gamalli úlpu vindur sér upp að mér þar sem ég stend við hraðbankann að taka út pening. Spyr:
„Geturðu ekki lánað mér klink svo ég geti keypt mér kammenbertost og ritskex?“
Ég svara: „Nei, því miður.“ (segi ég og stend með fullar hendur af seðlum)
„Neinei allt í lagi“ segir hann. „En ekkert vera að segja fólki að ég hafi verið að spyrja þig að þessu, fólki er eitthvað svo illa við það. Svona er bara fólk“
„Nei nei, ég geri það ekki“ (geng af stað inn í búðina og hann á eftir)
„Það er svona þegar maður er að hætta, það er erfitt. Fólk trúir því bara ekki hvað það er erfitt. Og pabbi manns og mamma halda að maður sé bara eitthvað..... En ég er kominn með nýjan lækni sem var líka fíkill og hann skrifar upp á hvað sem ég bið hann um!“ (Glottir).
„Nújá, er það“ segi ég.

Meira heyri ég ekki því ég staðnæmist við kjúklingakælinn en hann skundar áfram og tekur ekki einu sinni eftir að ég er ekki lengur við hliðina á honum.

Ég fór að pæla í því eftirá, var ég að misskilja hann - nú þekki ég ekki mikið inn á fíkniefnaheiminn en var þetta með kamenbertostinn kannski bara eitthvað slangur sem ég hef aldrei heyrt, eða var þetta bara svona mikill sælkeri?

Ég myndi nú vilja hafa upp á þessum lækni....

-------------
En jólin eru að koma. Hangikjötslæri var stolið úr geymslu í Vesturbænum (Ketkrókur?) og kona var troðin undir af trylltum lýð á leið á útsölu í Bandaríkjunum. Þetta las ég í Fréttablaðinu í dag. Aftur á móti er ég ekki búin að lesa Guðrúnarhvöt, Hamðismál, Þorláks sögu helga, safn dróttkvæða, Íslendingabók og Landnámu og allt hitt sem ég á að lesa fyrir Bókmenntasögupróf. Það er nú verri sagan.


Engin ummæli: