Bíómyndablogg
Það er eitt sem hefur alltaf angrað mig við amerískar bíómyndir, það er þegar virðulegir útlendir menn, t.d. soldánar í Arabíu eða afrískir ættbálkafeður eða evrópskir kóngar eða dætur soldánsins fara að tala ensku. Þegar þeir tala ensku tala þeir oftast með ROSALEGUM hreim, gera kannski eina eða tvær mjög einfaldar málfræðivillur, en vita allan FJANDANN af orðum og þurfa aldrei að hugsa sig um. Þessir menn hafa oftast búið í eyðimörkinni eða frumskóginum alla sína ævi og það er allt á huldu um hvernig þeir kunna ensku, en þeir geta notað orð sem ég hef aldrei heyrt, flest sem þeir segja byrjar á "My people are..." eitthvað, og svo fara þeir að tala um flugvélahreyfla eða hernaðarstrategíur eða geimréttarhagfræði eða guð veit hvað.. .
Þegar ég tala önnur mál en íslensku, og fyrir þessu finn ég mjög mikið núna á þessari önn, þá þarf ég alltaf að vera að hika og hugsa mig um, og oft kemur það fyrir að ég man bara alls ekki orðið eða hef ekki heyrt það. Það lætur mann kannski líta svolítið asnalega út, en það er nú bara svoleiðis þegar maður talar 'fremmedsprog' . Það væri aðeins raunverulegra að láta þessa menn hugsa sig pínulítið um áður en þeir fara að tala um 'liðveislu' og 'hernaðarútbúnað' og svoleiðis. Dæmi um svona myndir eru t.d. James Bond myndir og hin annars ágæta mynd Hidalgo.
En meira um bíómyndir.
Ég var að koma úr bíó, fór að sjá myndina Sky Captain and the World of Tomorrow. Hún leit út eins og mynd sem gæti verið sniðug, retro letur og einkar cheesy nafn, en góðir leikarar. Kannski þetta sé mynd sem hefur smá húmor fyrir sjálfri sér, hugsaði ég. Það hafði hún ekki.
EKKI sjá hana.
Ef þú samt ÆTLAR að sjá hana, ekki lesa lengra.
Ég hef séð margar margar vondar vondar myndir um ævina, (oftast viðloðandi heimilisfólkið á Vesturgötu 50a merkilegt nokk) og þessi mynd nær hátt á vondumyndaskalanum. Einhver hefur sagt, við skulum gera hittara, ævintýramynd, því fólk elskar ævintýri eins og LOTR, hafa eina gellu... Gwyneth Palthrow, já flott, nei betra, höfum TVÆR gellur - líka Angelinu Jolie! Og Jude Law sem góða gæjann! Og látum hana gerast í gamla daga. Hvenær...hmm...19...39? OK! Og höfum risavélmenni! og geimskip! og risaeðlur! og genabreytt vængjuð skrímsli! og drauga! og Örkina hans Nóa! og svona countdown....ten minutes to liftoff... Og svona heldur þetta áfram. Það vantaði bara risaköngulær... nei annars, voru ekki nokkrar? Og vondi kallinn hét Totenkopf! Hversu gott er það??
Jamm og já, og þetta eru ameríkanar að gera á meðan þeir kjósa hálfvita til að stjórna heiminum. Mér finnst að allur heimurinn ætti að fá að kjósa forseta Bandaríkjanna. Þá hefði eitthvað annað komið út úr kosningunum er ég hrædd um.
Góðar stundir.
miðvikudagur, nóvember 03, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli