mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég hljóp í burtu, þau voru ennþá á hælum mér og ég vissi að þetta var að verða vonlaust, bráðum myndu þau ná mér og stela af mér náttkjólnum sem myndi nýtast þeim í helgiathöfnina. Síðan var enginn vafi á að þau myndu drepa mig, þau gátu ekki hætt á að hafa mig á lífi, ég vissi þegar of mikið. Ég tók á rás inn í verslunarmiðstöðina, þar væri örugglega einhver sem gæti hjálpað mér, jafnvel lögregla, þó að ég hafi veigrað mér við að tala við hana fyrr vegna málsins, það hefði haft of mikla afskiptasemi í för með sér. En nú var ég tilbúin að gera hvað sem er til að halda lífi, en aðallega til að halda upplýsingunum frá óvininum.

Ég sá engan lögregluþjón, ekki einu sinni einn húsvörð. En hvað myndi það hjálpa mér, þau voru rétt fyrir aftan mig og gátu hæglega skotið mig með ofurhljóðdeyfðu skammbyssunni, jafnvel í miðri mannþröng. Ég var með símann í vasanum en hafði enn ekki haft færi á að hringja á lögreguna. Bara að ég kæmist einhvers staðar í var þar sem ég gæti hringt. Framundan var útfararstofa og ég ákvað að þar væri líklega hægt að fela sig í smá stund. Mér tókst að stinga þau nægilega lengi af til að þau sæu ekki að ég smeygði mér þangað inn. Ég hentist út í horn, sussaði á furðu lostna afgreiðslukonuna sem virtist ekki skilja alvöru málsins og tók upp símann. Ég sló inn númerið, 1-1-2, en fékk engan són. Auðvitað, þau voru búin að eiga við símann svo ég gat ekki hringt á lögregluna, ég hefði nú getað sagt mér það sjálf. Mér datt í hug að hringja í foreldra mína og biðja þau um hjálp, en var ekki búin að slá inn nema þrjá stafi þegar ég skynjaði nálægð þeirra. Ég sveipaði mig huliðsskikkjunni í skyndi og fylgdist með þegar þau stungu inn kollinum. Þau virtust ekki taka eftir mér, því þau lokuðu um leið. Ég nýtti tækifærið og um leið og ég hélt þau komin í örugga fjarlægð laumaði ég mér út og á nálægan veitingastað. Þar gæti ég ef til vill laumað mér inn í eldhús og út bakdyramegin. En mér féllust hendur þegar ég sá hvað mætti mér þar. Þau höfðu þá verið á undan mér, og sátu í mestu makindum við borð og horfðu á mig og glottu. Fljótt sá ég af hverju. Við hlið mér, í öllu sínu veldi var hann sjálfur kominn, Gísli Marteinn. Ég vissi vel af hverju hann hafði verið valinn til að neyða út úr mér upplýsingarnar. Hann sem var svo sjarmerandi og vissi hvaða spurninga þurfti að spyrja, hvernig hann gæti náð frá mér upplýsingunum. En þeim skjátlaðist. Aldrei, aldrei myndi ég láta þær af hendi, ekki eftir hremmingar síðasta sólarhrings. Ég hrækti framan í Gísla Martein af vanþóknun og tók á það ráð sem ég taldi eitt eftir. Ég vaknaði. Hremmingar næturinnar voru liðnar, ég hafði brugðist heiminum, því þó þau hefðu ekki náð upplýsingunum var ég sú eina sem gat afturkallað álögin, en það var um seinan. Átök morgundagsins litu dagsins ljós. Próf í spænskri málfræði eftir 25 mínútur.

Engin ummæli: