Fall er fararheill, ekki satt?
Ég byrjaði allavegana skóladaginn á því að hrynja út úr bílnum á bílastæðinu fyrir framan Aðalbyggingu. Ég steig út úr bílnum með skólatöskuna í annari hendi og íþróttatöskuna í hinni og rann einhvern veginn út úr bílnum, og eiginlega undir hann. Það er svolítið ósanngjarnt, því ég var búin að gæta ítrustu varkárni við aksturinn alla leiðina því ég er ekki á vetrardekkjum, og lendi svo í árekstri við eigin bíl. Ég hélt þetta myndi boða mér gæfu og gleði allan daginn, samkvæmt því sem segir um að fall sé fararheill, sérstaklega því ég átti að fá út úr spænskuprófi og 25% ritgerð. Ég sé ekki að það hafi hjálpað, jú jú, mér gekk ágætlega á prófinu en ritgerðin var óyfirfarin, svo ég fékk hana ekki.
En hér er svar við spurningu sem við hljótum öll að hafa spurt okkur að einhvern tímann: "Hvar er mamma?"
(Af Vísindavefnum)
"Þessi spurning barst okkur 2. mars 2002. Spurningunni fylgdu meðal annars þær upplýsingar að spyrjandi sé fæddur árið 2001. Ef það er rétt og við fengjum upplýsingar um fæðingardag gætum við gefið eitt einfalt svar við spurningunni. En ef þetta er innsláttarvilla þyrftum við í öllu falli að fá að vita rétt fæðingarár til þess að geta gefið þess konar svar. Við gerum ráð fyrir að lesendur okkar sjái þetta allt í hendi sér og rekjum það nánar sem hér segir:
* Ef spyrjandi er til dæmis 0-6 mánaða er líklegt að mamma hans sé með hann í fanginu eða hún sé hjá honum. Kannski er spyrjandi úti í vagni og mamma hans þá í kalltækissambandi við hann.
* Ef spyrjandi er til dæmis þriggja ára er líklegt að hann sé á barnaheimili þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni, og mamma hans í vinnunni.
* Ef spyrjandi er að minnsta kosti orðinn stálpaður er hann væntanlega í skóla eða vinnu og mamma hans í vinnunni.
* Ef við værum að svara þessu um miðnætti í kvöld mundum við segja að mamma spyrjandans sé sofandi í rúminu.
* En á milli 5 og 7 í gær var hún trúlega á líkamsræktarstöð.
Ef spyrjandi á í erfiðleikum í samskiptum við mömmu sína viljum við benda honum á svar Sigrúnar Júlíusdóttur við spurningunni Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar? En ef það gerist mjög oft að hann finnur ekki mömmu sína og þarf að spyrja þessarar spurningar, þá hlýtur önnur spurning að vakna, sem sé hvort hann ætti ekki að leita til barnaverndaryfirvalda eða til umboðsmanns barna. Um slík mál má finna nokkur svör hér á Vísindavefnum undir leitarorðum eins og "uppeldi", "börn" og svo framvegis."
mánudagur, nóvember 29, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli