föstudagur, október 10, 2003

Steini elskan mín var svo elskulegur að bjóða mér á tónleika á miðvikudaginn með Stórsveit Reykjavíkur og heimsfrægum trompetleikara, hvers nafn ég man ekki eins og er. Tónleikarnir voru á Borginni og umgjörð var öll sú glæsilegasta. Tónleikarnir voru frábærir, mér leið eins og ég væri í Chicago "in the roaring twenties", kristalsljósakrónurnar og viðarklæðningin hjálpuðu til upp á stemninguna, en kókglösin litlu tvö sem ég borgaði samtals 560 kr fyrir hjálpuðu þó ekki.

Það sem vakti þó einna mesta athygli mína á tónleikunum, (þar sem ég sá ekkert í hljómsveitina nema af og til í skallann á bassaleikaranum og svo Steina, bróður Viggu, sem gnæfði uppúr) var mannlífið í kringum mig. Fyrir framan og aftan okkur safnaðist nefnilega saman alls kyns celebb, ég tek sem dæmi KK, Andreu Gylfa, Jóel Pálsson og Tómas R Einarsson. Toppurinn var þó í hléinu þegar á svæðið mættu fyrrverandi og núverandi borgarstjórar, ásamt fríðu föruneyti, eflaust nýkomin af einhverjum fundinum. Vandamálið var bara það að það var fullt í öll sæti. Mér fannst frábært að sjá að hér á landi erum við ekkert að snobba fyrir fína fólkinu, þau þurftu að mjaka sér um salinn í leit að sætum eins og við hin til að finna loksins eitt borð sem rúmaði þau næstum öll, en Þórólfur þurfti þó að standa... er þetta ekki dásamlegt? Mér finnst það.


Engin ummæli: