mánudagur, nóvember 24, 2003

Kraptakeppni Mímis var haldið á laugardagskvöld og fór vel fram. Mín ákvað að skella sér hafandi heyrt að þetta væri hin besta skemmtun. Var töluvert af fólki mætt á svæðið og settist mín á borð með Eyrúnu Vals og fleiri drósum ásamt Aðferða og vinnubragðakennaranum mínum Jóhannesi Gísla. Hann var það staddur til að veita viðtöku Andvarpinu, árlegri farandönd sem varpað er til þess kennara sem þykir skara framúr hverju sinni. Var loftið málfræði blandið, til dæmis slæddurst inn í ræðu verðlaunahafa nokkrar góðar málfræðispurningar og síðar um kvöldið lenti undirrituð í liði með Sigyn og fyrrnefndum kennara í látbragðsleik, þar sem við lékum nokkur málfræðihugtök svo ekki lék vafi á um hvað var á ferðinni. Best tókst okkur þó upp með kjarnafærslu og hljóðan en túlkun okkar á Verners-lögmálinu vafðist eitthvað fyrir áhorfendum.
Karlakór Mímis söng svo af bar og Jón Gestur flutti ávarp nýnema, gegnsýrt af nýafstaðinni skálaferð.
Eftir að formlegri dagskrá lauk leystist samkvæmið upp í almennt fyllerí og dans, þar sem Sigyn og Sigurrós réðu ríkjum. Mín var þó akandi og lét sér nægja að dilla sér hóflega og pent við múzakkinn.

En nú dríf ég mig á aikidoæfingu, næstsíðustu fyrir gráðupróf!

Góðar stundir

Engin ummæli: